top of page

HÉR ER HÆGT AÐ NÁLGAST MA-RITGERÐINA

ÝTIÐ Á HNAPPINN

Rannsóknarverkefni þetta er 30e (ECTS) HMML431L lokaverkefni til MA-prófs í hagnýtri menningarmiðlun (HMM) við Háskóla Íslands. Lokaverkefnið skiptist í tvennt, annars vegar þessi rannsókn á – Nafnlausu ævisögunni: Einsögurannsókn á æviminningum frá uppvaxtarárum í sveit á Suðurlandi um miðja 20. öld, skráðar af Guðrúnu Bjarnadóttur frá Unnarholti - og hins vegar gerð hljóðbókarinnar Nafnlausa ævisagan – eftir Guðrúnu Bjarnadóttur, ljósmyndabókar af handskrifuðu handriti Guðrúnar og vefsíðu sem veitir aðgang að bókunum tveimur https://herdiskr.wixsite.com/aevisaganhljodbok.  Leiðbeinandi er Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur og lektor við Háskóla Íslands.

Haustið 2017 hóf ég undirrituð nám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Það var frábært tækifæri og sannkallað gæfuspor þegar mér bauðst að vera í námsleyfi frá kennslu, veturinn 2017-2018 eftir að mér var úthlutað styrk til náms frá Námsleyfasjóði kennara og skólastjórnenda frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég hafði þá unnið sem grunnskólakennari í Reykjavík frá því ég útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands vorið 2000. Námið var spennandi og opnaði dyr inn í heim fræða sem áður höfðu verið mér lokuð og óþekkt.  Í háskólanum sat ég fjölbreytt og skemmtileg námskeið og ég gæti vel hugsað mér að sitja fleiri. 

 

Það má með sanni segja að hin Nafnlausa ævisaga móðursystur minnar, Guðrúnar Bjarnadóttur frá Unnarholti, hafi verið falinn fjársjóður. Með tvenns konar hætti flokka ég hana sem fjársjóð. Fyrst sem dýrmæta heimild um líf og störf fólks í sveitum um miðja 20. öld og hins vegar hefur hún verið ómetanlegt verkfæri fyrir mig að vinna með í MA-námi mínu í hagnýtri menningarmiðlun. Um leið og ég hóf nám við HMM datt mér í hug að Nafnlausa ævisagan innihéldi fróðleik um menningu Íslendinga sem vert væri að miðla áfram. Söguna má flokka sem heimild um íslenska alþýðumenningu á 20. öld með áherslu á líf og störf í sveitum.

Markmið þessarar rannsóknar er að rannsaka æviminningar Guðrúnar Bjarnadóttur frá Unnarholti, Nafnlausu ævisöguna – með rannsóknaraðferð einsögunnar.  Sagan er skráð á árunum 2004-2007 og segir frá lífi og starfi fólks í sveit á Suðurlandi Íslands um miðja 20. öld og er því skráð um 60-70 árum eftir að hún gerðist. Sagan segir frá persónulegri upplifun af daglegu lífi, störfum og atburðum í lífi höfundar og samferðarfólks. Æviminningunum eru gerð góð skil í 66 kafla handskrifaðri bók.

Hér er ætlunin að róa á mið einsögunnar. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á horfna tíma, vega og meta gæði þeirra tíma í bland við lítilsháttar samanburð við nútímann. Hugtakið „sveitasæla“ verður skoðað og það borið saman við útópískar hugmyndir. Metið verður hvers konar sæla, sveitasælan var og niðurstöður þessarar rannsóknar byggðar á því mati. Í rannsókn þessari er handritið – Nafnlausa ævisagan grundvallarrit, hún kynnt, rannsökuð og greind út frá aðferðafræði einsögurannsókna. Markmiðið er að rannsaka þær lýsingar sem koma fram í bókinni á lífi og störfum fólks í sveitum rétt áður en íslenska sveitin varð tækni- og vélvædd um miðja 20. öld. Skoðað verður hvaða störfum var sinnt í sveitinni, hvernig vinnuálag var og verkaskipting. Rannsakað var hvað þau fjölbreyttu störf kölluðust, sem sinna þurfti og þar af leiðandi var orðaforðinn í sögunni rannsakaður lítillega og útskýrður.

Megináherslan er á því hvort sú rómantíska mynd sem dregin hefur verið upp af íslenska sveitalífinu eigi sér stoð í frásögninni. Þá er átt við hina jákvæðu hugmynd þéttbýlisbúa um sveitalífið, friðsældina þar sem var hollt og gott að búa og börn lærðu að vinna.  Hvaða kosti og galla hafði sveitasælan upp á að bjóða?

Það er skemmst frá því að segja að samkvæmt þeirri heimild sem stuðst er við í þessari rannsókn eru lýsingar á sveitasælunni nokkuð frábrugðnar þeirri útópísku mynd sem dregin hefur verið upp. Þegar fjölskyldan frá Unnarholti flutti úr sveitinni haustið 1963 var faðir Guðrúnar orðinn slæmur til heilsunnar og allir búnir að fá nóg af sveitasælunni.  Aldrei mátti fólki falla verk úr hendi og sinna þurfti búi og búfénaði á hvaða tíma árs og í hvaða veðri sem var.  Niðurstaða rannsakanda og söguritara er í stuttu máli sú að veruleikinn var ólíkur glansmyndinni. Íslenskt sveitasamfélag stóð höllum fæti þrátt fyrir tækni og vélvæðingu í íslensku samfélagi til sjávar og sveita upp úr miðri 20. öld. Freistingar sem bæjarsamfélagið hafði, buðu upp á harða samkeppni um vinnuafl við sveitasamfélagið. Þó lífið hafi oft á tíðum verið fjölbreytt og gott í sveitinni og enginn „dauður tími“ þar sem fólki leiddist, má lesa úr Nafnlausu ævisögunni að engin eftirsjá var af þeirri eilífu vinnu og basli sem sveitalífið um miðja 20. öld hafði upp á að bjóða. 

Lykilorð:  Einsaga – einsögurannsókn - æviminningar – sjálfsævisaga – ævisaga - Íslensk alþýðumenning - sveitasæla – sveitamenning - sveitalíf  

 

Reykjavík, september 2018  

Herdís Kristinsdóttir       

bottom of page